Orð og hlutir

Lyktir

(sem þýðir samt annað í fleirtölu)

tússÉg var að búa til ávaxtasmúðí, og hann lyktar eins og túss sem ég átti einu sinni, úr setti tólf tússa sem höfðu hver sinn lit og lykt. Lyktin sem ég finn núna er þessi af bleika vatnsmelónutússinum, samt er engin melóna í smúðínu.

Hún minnir mig líka á límmiðalykt* – svo sæt að hún er gervileg(ri), þó mild og staðbundin miðað við t.d. ilmvatns- eða sjampólykt, og ekki beinlínis eins og neitt sem fyrirfinnst í náttúrunni, en samt mjög nálægt því.

Mér finnast svo margar gervilyktir til algerrar óþurftar og jafnvel frekar ógeðslegar, til dæmis kemísk blómalykt af dömubindum (hún skánar ekki í bland við túrlykt), og hárlykt finnst mér miklu betri en sjampólykt.

Eitt af því sem ég kann vel að meta við vorið er að það hefur alls konar lykt, ekki bara grilllykt heldur moldar- og gras- og sólskins- og blóma- og ryklykt. Kuldi og frost kæfir alla náttúrulykt svo veturinn lyktar yfirleitt bara af frosti, stundum jólum og mengun.

Ef mann langar að segja fólki að fara til fjandans á finnsku er hægt að biðja það að þefa af skít eða af kynfærum kvenna, og eflaust einhverju fleiru.
límm

* = lykt af sérstökum lyktarlímmiðum, sem var býttað dýru býtti í hinu svarta hagkerfi á skólalóðinni í denn.

Þetta blogg mitt

Sönn saga: ég var búin að steingleyma tilvist þessa bloggs míns, þangað til um daginn að ég var að gúgla eitthvað og það birtist sem fyrsta niðurstaða. Enda hef ég ekki skrifað á það nema fjórar færslur, fyrir rétt um fjórum árum, rétt áður en ég flutti aftur til Íslands, eftir að hafa búið í Finnlandi í fjögur ár. Tíminn, sko.

Hin yfirlýsta pæling með þessu bloggi mínu (fyrir utan bara það að blogga, af því að gaman) virðist hafa verið að skrásetja hugleiðingar um finnska tungumálið og námið mitt í því, og mastersritgerðina (sem var reyndar bara nefnd einu sinni í téðu fyrirheiti og aldrei meir, og sem ég er enn að vinna í, alls konar löngum hléum og blokkeringum síðar). Svo hef ég kannski bara viljað byrja á einhverju nýju og (á yfirborðinu að minnsta kosti) fortíðarlausu, frekar en taka upp þráðinn á halastjörnuslóðinni sem ég skrifaði á 2004–2010 og sem ég virðist hvort sem er ekki geta loggað mig inn á lengur, bara lesið eins og hver annar, en það er ágætt líka.

Þessi færsla átti samt ekki bara að vera metablogg, og ekki nenni ég heldur að rekja síðastliðin fjögur ár í styttu máli, en ætli markmiðið liggi ekki einhvers staðar á milli beisik blaðurþarfar og nostalgískrar endurlífgunartilraunar, leiða á Facebook og vangetu til að segja nokkurn skapaðan hlut í 140 slögum.

Ég hef í öllu falli dundað mikið við finnskuna undanfarin ár þó ég hafi búið í Reykjavík – þýtt úr henni þrjár skáldsögur og alls konar annað, kennt hana í einkatímum og á byrjenda- og framhaldsnámskeiðum, talað hana í nokkuð reglulegum heimsóknum og dreymt á henni alls konar stuð. Og dundað áfram við ritgerðina, en það er m.a. gaman vegna þess að þegar ég opna aftur drög að köflum sem ég skrifaði kannski 2011 eða 13 finnst mér stíll og orðalag oft alveg gjörsamlega skelfilegt, sem hlýtur að þýða að ég hafi tekið einhverjum framförum í að skrifa og meta finnskan texta í millitíðinni.

Og hér kemur nýleg draumsaga: ég lagði mig í gær, svaf ekki lengi en afar fast og dreymdi draum sem hafði dæmalaust langan og samhangandi þráð miðað við það brotakennda gums sem ég er vön að muna úr eigin draumum. Hann byrjaði þannig að ég og önnur kona (eða kannski sama konan, er það ekki dáldið svoleiðis í draumum manns) vorum í íbúð þar sem nokkrar manneskjur héldu okkur föngnum með illt í hyggju. Eða tæknilega séð var mér ekki haldið fanginni, þar sem ég var í felum í íbúðinni (á bak við sófa!) og enginn vissi af veru minni þar nema hin konan, en samt komst ég ekki út af því að dyranna í hinum enda íbúðarinnar var vel gætt. Og þegar ég var farin að óttast að hin konan kæmi upp um mig – kannski til að skapa glundroða og komast undan, eða til að vera ekki lengur eini vitaði fanginn á móti öllum hinum, eða einfaldlega til þess að knýja fram einhverja tilbreytingu – þá rétti hún mér hamar þegar enginn sá til og sagði mér að nota hann. Og ég flýtti mér að glugganum, sem var lóðrétt ílangur með opnanlegu fagi efst, mundaði hamarinn og braut stormjárnið, hífði mig upp og stakk mér út (íbúðin var á jarðhæð) og hljóp í burtu. En svo áttaði ég mig á því að auðvitað hefði ég átt að skilja hamarinn – sem ég hélt enn á í hendinni – eftir, svo að bjargvætturin mín hefði getað notað hann síðar, og fylltist samviskubiti. Restin af draumnum fór að mestu í það að sniglast kringum íbúðina og leita færis til að lauma hamrinum inn um glugga, með (merkilega gagnslítilli, að vísu) aðstoð einhvers konar andspyrnuhreyfingar sem hafði innlimað mig eftir flóttann. Það hafði ekki tekist þegar ég vaknaði.

 

Gær

Dagur finnskrar tungu var í gær

eða reyndar var hann í gær fyrir 13 dögum, ég er bara búin að finna þessa setningu og fleiri sitja eins og eitthvert kám á fingurgómunum síðastliðnar tvær vikur en er fyrst loks nú að ná að núa* þeim oní lyklaborðið, þeim og fleiru, er líka að borða smáköku sem ég dýfi í kaffi. Þetta er gott kaffi og góð smákaka — msg me for uppskrift!

Þessi dagur finnskunnar er einnig kenndur við Mikael Agricola, sem dó þann dag aðeins u.þ.b. tæplega fimmtugur að aldri eftir allskonar grettistök í þágu finnsks ritmáls. Enginn veit hvenær hann fæddist, en reyndar er þessi sami 9. apríl fæðingardagur Elíasar Lönnrot sem á nítjándu öld safnaði finnskum kvæðum og sögnum saman í bálkinn sem nefndur er Kalevala.

Ég kom fyrst til Finnlands í apríl 2007 (þá á fyrsta ári í finnsku við HÍ), á námskeið hingað til Turku. Þá voru 450 ár frá dauða Agricolas (sem sjálfur starfaði einmitt hér á sínum tíma) og allskonar eitthvað í gangi af því tilefni í háskólanum, margt hvað fór rakleitt framhjá mér en ég man að minnsta kosti greinilega eftir plakötum og póstkortum út um allt sem minntu á ártíðina og báru slagorðið oma kieli – oma mieli, eða eigin tunga – eigin hugur. Eftir að ég flutti hingað 2009 og kynntist borginni og háskólanum og fleiru hefur mér alltaf fundist skrítið að hugsa til þessarar tæpu viku sem ég dvaldi hér 2007, þegar allt var nýtt og finnskt og illskiljanlegt og finnskt og óralangt frá því að vera mitt eigið, og eins eftirágott og lærdómsríkt það er að villast um nýja staði og ný tungumál er alltaf jafnskrítið að rifja upp hughrifin tengd því að rata ekki neitt og skilja bara max fimm prósent þess sem sagt var, horfast í augu við minninguna um framandleika þess sem er ekkert sérlega framandlegt lengur.

En þetta slagorð: ég sé töluvert meira til í því en rímið eitt. Þótt ég sé orðin nokkuð reiprennandi núna og það sé löngu hætt að kosta ofurmannlegt átak að fremja allraeinföldustu setningar, þá stendur maður aldrei eins vel að vígi á annarra tungum. Þegar hlutfallslega meira af orku og einbeitingu fer í það eitt að skilja orð og tíðir og samhengi getur annað farið forgörðum í staðinn — man þegar ég var rétt byrjuð að skilja nokkurnveginn allt sem ég heyrði, en meðan það var þó enn töluverð fyrirhöfn, að hafa áttað mig á því einhverju sinni að ég var einfaldlega ógagnrýnni á innihald setninga en ég hefði verið líkleg til annars. Var líklegri til að bara kinka kolli og meðtaka gagnrýnislaust, fegin því einu að hafa skilið um hvað málið snerist. Sama gilti um brandara, það að hafa a) fattað að um brandara var að ræða b) fattað hvað átti að vera fyndið við hann fannst mér svo magnað að varla gafst ráðrúm til að meta hvort mér þætti brandarinn einu sinni raunverulega eitthvað sérlega fyndinn.

Því frekar ótengt: í finnsku er fullt af lánsorðum. Þau orð sem má yfirleitt treysta á að tilheyri beisik eða „upprunalegum“ orðaforða hvers tungumáls eru allajafna orð tengd náttúrunni, fæðuöflun, fjölskyldutengslum og fleiri álíka beisik hlutum. Ég man eftir að hafa staldrað við þegar ég áttaði mig á því að finnska orðið yfir klukkustund er lánsorð úr skandinavísku, og ungverska (skyldmál finnsku) orðið yfir klukkustund er lán úr latínu, og að finnast svo aftur skrítið í kjölfarið að hafa aldrei hugsað út í það beinlínis fyrr að tímatal er í rauninni alls ekki eins beisik eða „upprunalegur“ hlutur og tíminn. Það er varla lengra en einhver fáein hundruð ára síðan öllum var nákvæmlega sama um þessar smærri einingar sólarhringsins, þá var bara dimmt eða bjart og morgunn eða kvöld; enginn klukkutími. Ég er líka viss um (minnir jafnvel að ég hafi lesið um eitthvað slíkt) að til sé eða hafi verið tungumál sem hefur komist af með algeran lágmarksorðaforða og -málfræði til að vísa í fortíðina, og að þar hefði alveg getað komið út á eitt að segja „í gær“ eða „í fyrra“ eða „þann níunda apríl tvöþúsundogþrettán“.

_ _ _ _

*Áhugavert að lesa um núið og naið: https://www.doria.fi/bitstream/handle/10024/7242/asequent.pdf

Það olli temmilegum straumhvörfum í stafrænu lífi mínu þegar ég loksins hafði rænu á að koma finnsku lyklaborði fyrir í tölvunni fyrir varla meiru en svona hálfu öðru ári, hafandi þá skrifað allskonar finnsk orð nokkuð reglulega í allavega svona fjögur ár. Ber svosem ekki mikið á milli (í þá áttina); ö-ið finnst þegar á íslenska lyklaborðinu, og þarf bara shift-skipun (sem reyndar er ekki sú þjálasta en orðin mér sjúklega töm) til að fá fram ä á einn veginn og å á hinn (sem slæðist alltaf með, þrátt fyrir að vera ekki í neinum finnskum orðum — nærtækt dæmi um hér títtnotað sænskt årð er Åbo, sænska nafn Turku).
Veit samt ekki hvernig finnska varð default lyklaborðsmálið. Því væri eflaust enginn stór vandi að breyta, en það truflar svosem ekki og heldur engin beinlínis regla á því hvort stafrófið ég nota meira. Einu skiptin sem ég rek mig á að vera með stillt á „rangt“ lyklaborð eru þegar það fyrsta sem ég skrifa eftir að hafa opnað tölvuna er „hæ“ í tjattglugga, en þar sem æ er á íslenska er ö á því finnska. Hö.

Nú fer ég annars  að hugsa um nafnið á Turku/Åbo og að það gæti verið dáldið krúttlegt að kalla hana Árbæ á íslensku, nema hvað að ég kann ekki almennilega við að nota skandinavísku staðanöfnin framyfir þau finnsku (þoli ekki þegar fólk talar um Helsingfors á íslensku). Turku er svosem að öllum líkindum ekkert erki-úgrískt, heldur á sér víst sömu orðsifjar og torg í norrænum málum, því hér var elsti og helsti  kaupstaðurinn. Markaðstorgið í miðbænum (sem ber hið ágæta germanskættaða nafn Kauppatori) er á næsta horni við húsið mitt. Þar eru sölutjöld með grænmeti og blómum og allskonar mat og skrani og þótt skyggi á það úr öllum áttum hótel og mínímoll og þrír Hesburgerstaðir og ein orþódoxkirkja, og það sé helsti strætóskiptablettur bæjarins, þá er það samt ekta lifandi markaðstorg (svona eins og er ekki til í Reykjavík) og síðasta sumar vorum við þar við mótmæli gegn áformum um að grafa risa bílastæðakjallara undir torgið — mér skilst það af bílandi kunningjum að sé ALDREI aðkallandi skortur á stæðum í miðbænum hérna nema kannski í mesta lagi á Þorláksmessu í hittifyrra. Væri eiginlega heilmikil synd að skemma þetta líka fína torg með löngum og sársaukafullum uppgraftarprósess, já líklegast skemma því það yrði alls ekki gefið að andrúmsloftið ætti afturkvæmt að honum loknum. Hö.

Að vera og ekki

Stundum er eins og ég kunni ekki almennilega að segja nei, og almennilega væri hér t.d. í slíku tilfelli að allir að mér meðtaldri hafi þegar sagt nei og útlit fyrir að enginn muni taka [insert allskonar í sjálfboðavinnu fyrir helstil ofvirk en þó sympatísk og skemmtileg félagasamtök] að sér — kannski reikna ég þá semíátómatískt með að tími annarra sé mínum hreinlega yfrið mikilsverðari — og segi já.

Reyndar er meira en að segja það að segja nei á finnsku; ekki með óbreytanlegu einsatkvæðisorði heldur nokkurskonar tvískiptri neitunarsögn.
Spurning: Ertu þarna?
Svar: Er ekki (eða öllu heldur „ekki er“, og í ekki-nu felst auk neitunar fyrsta persóna eintölu, sem þýðir að sögninni má alfarið sleppa þar sem hún kom jú þegar fram í spurningunni).

Finnska är finska on suomen kieltä.

Finnska er kannski uppáhaldstungumálið mitt. Hún leyfir ekki samhljóðaklasa í upphafi orða, sem veldur því að saklaus skandinavísk tökuorð sem hefjast á fleiri en einum samhljóða enda í aðlögunum á borð við ranska (franska), pelata (spila) og rillit (gleraugu). Samhljóðar koma hinsvegar saman innaní orðum á borð við itse, sem þýðir sjálf en þýddi að öllum líkindum upphaflega (eða sirka þegar sjamanismi var meinstrím) einskonar sálarskugga/doppelgänger eða fylgju einstaklings, og otso, sem í dag er notað sem karlmannsnafn en þýddi upphaflega björn. Bjarndýrið var hinsvegar sveipað svo mystískri friðhelgi að ekki mátti nota raunverulegt nafn þess; á endanum datt otso-nafnið því smám úr notkun en eitt veigrunarheitanna, karhu (en því nafni deilir vinsæl finnsk bjórtegund), festist við björninn og er þar enn.

Finnska ritmálið hóf að taka á sig núverandi mynd á 16. öld (uppúr siðaskiptum nema hvað) er munktýpa nokkur og orðasafnari að nafni Agricola tók uppá skipulegri skrásetningu orðanna sinna og reglulegheita þeirra, að því er virðist einmitt hér í Turku (sem n.b. er elsta borg Finnlands og fyrrum höfuðborg og frekar best að mörgu leyti). Hvað hljóðfræði snertir lagði hann víst upp með það grundvallaratriði að hverju einstöku hljóði skyldi ávallt samsvara aðeins einn bókstafur, enda ritmálið afar samkvæmt sjálfu sér að þessu leyti. Við skrásetningu málfræðinnar notaðist hann við latínu sem grunn, sem er pínu spes því finnska er svo allt öðruvísi upp byggð að það myndi jafnvel meika meira sens að nota eitthvað allt annað, eigið kerfi (svo hefur t.d. munurinn milli eignar- og þolfalls máðst út að því marki að í nútímamáli gætir hans bara í persónufornöfnum), en á einhvern hátt er það þó ekki nema viðeigandi að svo agglútinatívt (köllum það límríkt) tungumál, sem er talað í tví(að minnsta kosti)tyngdu samfélagi og einkar opið fyrir lánsorðum og fellingu þeirra inní eigið, alla jafna ólíka kerfi, hafi fengið málfræðihugtökin úr latínu.

Ég hugsa að ég hugsi enn á íslensku (og alls óháð samhengi tel ég alltaf á henni), en ég tala hana ekki dagsdaglega. Ég skrifa hana samt fullt, aðallega á internetinu okkar allra. Þessi síða er í aðra röndina hugsuð sem ventill fyrir pælingar um mastersritgerð, sem er um (finnsk) orð og tungumál (aðallega finnsku) og málnotkun og -skilning (á finnsku), og sem er ekki skrifuð á íslensku (heldur finnsku) svo ég veit ekki alveg að hverju miklu leyti pælingarnar um hana geta verið það… en sjáum sjáum til. Í það minnsta orð um orð og kannski sitthvað fleira.